home
   
  vindpensill - tungl - sólir - sólstöður - bókin
  að tilefnislaususjálfsögð - haust - sem kominn
  inannhúss - með samstilltu átaki
  á víð og dreif 1 - á víð og dreif 2 sandurinn - án þess
   
 
 
   
   
nafnlausu litirnir allir
  sem lognið teiknar
  á sjónhimnu hafsins
   
  þessi kvöld
   
  ó vindpensill skrá
  þú mér nöfnin
 
 
 
   
   
  Lengra litla tungl, enn lengra
  alla leið til mín og til baka
  sóttirðu visku þína.
   
  Hengjur þínar og gígir
  ótroðin enn
 
 
 
   
   
  Safnast milli fjalla
  þokur og hamrar
  mér til hugarléttis.
   
  Að baki
  hafið krökkt af ferjum
  öllum á annari siglingu, enn sem komið er.
   
  Innar og ofar
  ís og ýmsar sólir.
  Skyldi þar byggilegt?
 
 
 
   
   
  Sólstöður júní 2014‎
   
  þungbúnar sólstöður
  lágskýjuð fjórða víddin
  möndullinn snýst á sveif
  sunnan
   
  með sviga lævi
 
 
 
  
  
 Bókin um veginn
  
 Ný braut ber sig fagmannlega
 bogadregin milli fjalla
  
 ekki sá vegur sem ég vænti
 nýtt nafn, rangnefni.
  
 Ég hinkra við
 hérna megin.
 
 
 
  
  
 Að tilefnislausu
 þegar enginn gáir til veðurs
  
 regnbogastubbur í mýri
 
 
 
   
   
  sjálfsögð ákveðin þvoglumælska
  útlitsgallað sérhljóðakerfi
  of mörg föll
   
  en veður þess víðfeðm, djúptæk
  fjallahringur svipmikill
   
  miskleifur
 
 
 
   
   
  haust
  og endurkoma himintungla
   
  vötn glóa
  í húminu
   
  og bak við dýpstu fjallaskörðin
  einhver jól ...
 
 
 
   
   
  sem kominn
  og steinarnir á sínum stað
  lausir við merkingarleysi
  mitt að raða áfram
  án þess komi traðk
  skuggum af fjallasýn í grasinu
  sólarhæðum í vindi
  svo aftur rísi byggð
 
 
 
   
   
  Laufguð tré við gluggann
  hjartans græn í morgunsólinni
   
  en orð mín öll
  inannhúss
 
 
   
   
  með samstilltu átaki
  kviksetjum við söguna
   
  sópum brotum af syllum
  persónuskilríkjum af götunni
   
  að særð og mállaus
  gangi hún ekki aftur strætin okkar
 
 
 
   
   
   á víð og dreif
 

á gilsbarmi

 

við brúarsporð

   
  og oftar en tilviljun væntir
 

í vonarstræti

   
  röng orð, óort.
 
 
 
   
   
  á víð og dreif
  eins og steinar á hjarni
  klofin orð
   
  verða úr þeim tvö og tvö?
   
  það veit einn
  sá þögli orðvaki
 
 
 
   
   
  Þú gengur genginn sandinn
  grímulaus slóðaauki
  sáningarmaður, himnamálari.
   
  Svo höggglaður.‎
   
  Þú skimar í þekktar áttir:‎
  viltu fjallahringinn fjær?‎
  vötnin blárri?
   
  Sprengdu, kjáni,
  plægðu, litli vargur.‎
   
  Hugsanlega
  vill þér þó sandurinn annað.
 
 
 
   
   
  þú fangar ekki vind
  án þess
  þú andar ekki
  ekki bærist hjartað
  án þess
   
  ekki rennur sjór
  leggur vötn
  án þess
   
  að svífi yfir vötnum